150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Varðandi lögreglumennina er það eitt af þeim fjölmörgu málum sem eru nýkomin inn á mitt borð og ég mun skoða nánar. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að auka öryggistilfinningu lögreglumanna, sem er auðvitað það mikilvægasta. Ég hef áhyggjur af því að þeir séu einir í bíl og þurfi að takast á við erfið verkefni og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja öryggi þeirra. Stefna ríkisstjórnarinnar er í þá átt og það hefur sýnt sig með fjárframlögum til fjölmargra atriða og því munum við halda áfram.

Hvað varðar sýslumenn yfir höfuð þá eru, eins og áréttað er í skýrslu Ríkisendurskoðunar, ákveðnir veikleikar í rekstri sýslumannsembætta landsins og reksturinn er ekki sjálfbær, skuldum hefur verið safnað og þjónustan er ekki í samræmi við væntingar t.d. hvers bæjarfélags eða embætta. Í fjárlagafrumvarpinu sem við ræðum í dag er 150 millj. kr. fjárveiting til embættanna þar sem við erum að reyna að skoða hvort við getum ekki gert reksturinn sjálfbæran og stoppað þessa skuldasöfnun sem hefur verið í gangi, greitt niður skuldir og eflt líka stafræna innviði embættanna sem ég tel gríðarlega mikilvægt, sér í lagi árið 2020. En markmiðið er alltaf, sama hvaða embætti við tölum um, bætt þjónusta við borgarana og betri nýting fjármuna. Það er einfalt.

Varðandi Vestmannaeyjar er ekki verið að færa neina fjármuni frá Vestmannaeyjum. Það er verið að skoða þetta heildstætt og ég mun gera það og leggjast yfir hvernig við getum aukið …(Gripið fram í.) Það mun ekki vera til frambúðar, en við skoðum hvernig við getum eflt embættið. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem snúa að því hvernig við getum gert embættin sjálfbær en aðallega stuðlað að því að það séu full verkefni í fjölmörgum bæjarfélögum úti um allt land og mögulega störf án staðsetningar.