150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:55]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir hamingju- og árnaðaróskir til handa hæstv. nýjum ráðherra. Ég ætla eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason aðeins að tala um lögregluna. Það hefur staðið gríðarlegur styr um lögregluna að undanförnu eins og hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni og mig langar að heyra aðeins ofan í hæstv. ráðherra um þær áherslur sem hafa ríkt í málefnum lögreglunnar og kannski starfi lögreglunnar. Það hefur lýst sér í því að lögreglan er hvergi sjáanleg langtímum saman á mjög stórum svæðum en hefur svo skyndilega og allt í einu alveg yfirþyrmandi nærveru á öðrum stundum, jafnvel með vopnaburði sem ekki er augljós þörf á. Á stórum svæðum á landinu þarf að sækja löggæslu um langan veg og það skapar náttúrlega óþolandi öryggisleysi fyrir þá íbúa sem við slíkt búa. Það þarf ekki að fara mörgum orðum heldur um fjölgun ferðamanna í því sambandi.

Ég vil minna á það að árið 2009, fyrir tíu árum síðan, samkvæmt svari þáverandi dómsmálaráðherra, Ólafar Nordal, voru lögreglumenn 686, en samkvæmt svari fyrirrennara hæstv. dómsmálaráðherra eru lögreglumenn nú árið 2019 664. Þetta er þróunin. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að hugleiða aðeins með mér hvort sú þróun sé góð og æskileg.