150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:57]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast við þessu hjá hv. þingmanni með því að segja að auðvitað er og verður öryggi almennings alltaf í algjörum forgangi, sama hvað líður stjórnsýsluúttektum eða mannauðsmálum hjá embættunum. Ég trúi því einfaldlega að allir sem koma að borðinu séu allir af vilja gerðir til að hafa öryggi borgaranna númer eitt, tvö og þrjú. Það er auðvitað það sem skiptir mestu máli þegar við hugsum um löggæsluna. Annað er í vinnslu og við munum vonandi ná farsælli lausn á því.

Varðandi fjölda lögreglumanna sem hv. þingmaður nefnir þá þarf að tryggja að endurnýjun geti átt sér stað í lögreglunni og nýliðun sérstaklega og það er búið að fara í sérstakt átak til að fjölga lögreglumönnum í tengslum við meðferð kynferðisbrota, rannsókn efn ahagsbrota, rannsókn netglæpa og rannsóknir á skipulagðri glæpastarfsemi. Það er kannski ekki sú starfsemi sem fer fram á götum úti en embættin hafa líka m.a. fjölgað rannsakendum sem eru ekki endilega lærðir lögreglumenn. Þetta er auðvitað þróun sem er óhjákvæmileg, en hún gerir það samt að verkum að löggæslan er að eflast. Við erum að fylla í öll þau atriði sem við vorum ekki nægilega vel stödd með fyrir nokkrum árum og forgangsröðunin hefur alltaf verið að efla þá þætti sem lakast standa og svo munum við efla allt saman. Það er verkefnið sem ég fæ í hendur og mun leggja mig alla fram við að sinna.