150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:00]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, auðvitað eru allir lögreglumenn, hvar sem þeir sitja, mjög mikilvægir fyrir starfsemina. En ég get verið mjög stolt og fyrrverandi dómsmálaráðherrar geta verið mjög stoltir af því að hafa aukið verulega fjármuni sem settir hafa verið í að efla m.a. kynferðisbrotamálin og þann þátt lögreglunnar svo um munar þegar litið er til hvernig þeim málum hefur verið háttað síðustu ár, og líka í rannsókn á stórri og skipulagðri glæpastarfsemi af því að við ætlum ekki að láta okkar eftir liggja í því.

Varðandi Útlendingastofnun er verið að setja fjármuni í fjárlagafrumvarpinu í að styrkja verndarsviðið sem er svið sem afgreiðir allar umsóknir. Það er verið að auka sveigjanleika stofnunarinnar til að geta fjölgað og fækkað lögfræðingum eftir fjölda umsókna hverju sinni. Ég trúi því að með því getum við náð betri árangri í að stytta tímann við að afgreiða umsóknir fyrir þá aðila sem sækja um svo þeir fái svör hraðar án þess að það bitni á gæðum þess hvernig á málum er tekið innan embættisins. Þetta er nýmæli á þessu ári og við erum að halda því áfram. Við erum auðvitað að reyna að halda kostnaði í skefjum þrátt fyrir fjölda umsókna og stytta málsmeðferðartímann í leiðinni.