150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég óska nýskipuðum dómsmálaráðherra velfarnaðar í störfum sínum. Það er ánægjulegt að koma hingað upp til að ræða við hana um útgjöld í málaflokki sem vissulega er, eins og hefur verið rætt, viðamikill og viðkvæmur. Ég myndi vilja byrja að ræða um útlendingamálin og þá sér í lagi málshraða hjá Útlendingastofnun. Ég sé að það stendur til að fjölga stöðugildum á verndarsviðinu þannig að mögulega verði hægt að flýta afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, mér sýnist það alla vega af lestri frumvarpsins. Það er ánægjulegt út af fyrir sig. En mig langar að spyrja út í umsóknir um dvalarleyfi. Umsækjendur sem sækja um ríkisborgararétt og þeir sem sækja um dvalarleyfi hjá okkur hafa þurft að búa við það að lengd málsmeðferðartímans hefur tvöfaldast síðan í fyrra. Í júní 2018 breyttist það úr því að það tæki 90 daga að fá afgreiðslu umsóknar um dvalarleyfi yfir í 180 daga og í stað þess að afgreiðsla umsóknar um ríkisborgararétt taki sex mánuði tekur hún núna 12. Þetta er ekki tími sem mér finnst eðlilegt að við bjóðum fólki upp á sem kemur og vill setjast hér að. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort hæstv. dómsmálaráðherra ætli sér að gera eitthvað í því.

Ég hef einnig áhuga á að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í Persónuvernd, en ég sé að það er svo gott sem engin hækkun til þeirrar mikilvægu stofnunar í fjárlögum þessa árs. Það er talað um 8 milljónir en ég sé reyndar bara eina út úr því. Reiknikúnstir hafa svo sem aldrei verið mín sterkasta hlið, en ég sé alla vega að það er ekki mikið um hækkun þar. Ég veit til þess að Persónuvernd hefur þurft að svara gríðarlega mörgum fyrirspurnum og hefur þurft að bæta á sig gríðarlega miklu álagi út af persónuverndarreglugerðinni sem við erum búin að innleiða. Vegna kvartana einstaklinga og vegna stöðunnar sem komin er upp (Forseti hringir.) þá hefur hún ekki svigrúm, hvorki hvað varðar starfsfólk né fjármuni, til að sinna frumkvæðisathugunum. Er þetta ekki eitthvað sem þarf að laga?