150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:12]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Varðandi Útlendingastofnun fyrst þá er rétt að verið er að færa fjármuni til innan stofnunarinnar auk þess sem verið er að auka þá og reyna að nota sveigjanleikann til að bregðast við auknum fjölda umsókna um alþjóðlega vernd. Ég býst við að þetta hafi sambærileg áhrif á málshraða vegna dvalarleyfa og ríkisborgararéttar og vona það en þekki ekki hvernig staðan er nákvæmlega í þeim málum núna. En ég bind vonir við að almennt getum við hraðað afgreiðslu umsókna og stytt málsmeðferðartímann til hagsbóta fyrir alla.

Hvað varðar Persónuvernd hafa fjárheimildir hennar aukist úr 110 millj. kr. árið 2017 í 305 millj. kr. árið 2020. Þetta er þreföld hækkun og er almennt til að sinna verkefnum, eins og hv. þingmaður nefnir, sem leiða af nýja persónuverndarregluverkinu. Nú er að komast reynsla á lögin og umfang stofnunarinnar hefur auðvitað þrefaldast eins og fjármögnunin og stækkunin er í samhengi við það. Þegar komin verður meiri reynsla á lögin þurfum við að endurskoða hvort það þurfi aukafjármuni, t.d. í frumkvæðismál og fleira hjá Persónuvernd. Fjármálaáætlun er endurskoðuð á hverju ári þannig að mögulegt er að gera það þá.