150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:17]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. ráðherra Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur til hamingju og óska henni velfarnaðar í starfi. Við ræðum fjárlagafrumvarp ársins 2020 og þau málefnasvið sem dómsmálaráðherra fer með. Ég mun halda áfram að nokkru leyti þar sem frá var horfið í samtölum hér á undan en ég fagna markmiðum fjárlaga um styrkingu stafrænna innviða sérstaklega og þar með bætta þjónustu við borgarana og trúi því að betri nýting ríkisfjármuna fáist með aukinni stafrænni málsmeðferð og gagnvirkri upplýsingagjöf.

Í desember 2018 skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu um málsmeðferð og verklagsreglur Útlendingastofnunar sem unnin var að beiðni Alþingis. Ein af meginniðurstöðum þeirrar skýrslu er að bæta megi áætlunargerð og skilvirkni í meðferð umsókna hjá Útlendingastofnun auk þess að stytta málsmeðferðartíma með því að innleiða betri upplýsingakerfi og taka upp rafrænt umsóknarferli. Öllum umsóknum til Útlendingastofnunar er nú skilað á pappír fyrir hvers konar leyfi, hvort sem það eru vegabréfsáritanir, dvalarleyfi eða umsóknir um alþjóðlega vernd. Á sama tíma hefur handhöfum dvalarleyfa fjölgað um 134% og fjöldi annarra umsókna aukist mjög mikið. Þeim breytingum hefur hingað til oftast verið mætt með átaksverkefnum og tímabundnum fjárveitingum en ekki farið í þá nauðsynlegu styrkingu sem nú er horft fram á til lengri tíma. Ég vil þess vegna biðja ráðherrann um að fara aðeins yfir hvaða helstu kosti hún sér við innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu í málefnum borgaranna almennt, bæði fyrir (Forseti hringir.) notendur þjónustunnar og stjórnvöld, ekki síst út frá málefnum útlendinga.