150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:20]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og þetta er allt rétt hjá hv. þingmanni. Það er afar mikilvæg vinna í gangi og löngu tímabær, ef svo má segja. Við leggjum fjármuni í að vinna þetta í öllum kimum stjórnsýslunnar og það heyrir ekki síst undir mitt ráðuneyti þar sem við getum gert svo miklu betur ef rafræn stjórnsýsla mun aukast. Það er rétt hjá hv. þingmanni, þetta er ekki bara fyrir okkur til að fara betur með fé og geta fengið tækifæri til að nýta fé með öðrum hætti, aukið fjármuni vegna aukinnar rafrænnar stjórnsýslu, heldur auðvitað fyrst og fremst fyrir borgarana, fyrir betri og skilvirkari þjónustu, fá fyrr svör frá stjórnsýslunni, það sé greiðari aðgangur að upplýsingum og gögnum eða til að óska eftir hverju sem það er. Ég held að þarna leynist gríðarlega mörg tækifæri og hlakka mikið til að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu.

Hv. þingmaður og fyrrverandi ráðherra, Sigríður Á. Andersen, lagði fram mál um rafrænar þinglýsingar og það er núna að verða að veruleika og er fjármagnað að mörgu leyti í fjárlagafrumvarpinu. Ég hlakka til að sjá hvernig því góða máli vindur fram því að ég held að allir séu sammála um það sem hafa komið að þeim málum, hvorum megin við borðið sem þeir eru, að þau séu orðin ansi úrelt.