150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:21]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og er ánægjulegt að sjá þegar brugðist er við ábendingum Ríkisendurskoðunar og umfjöllun Alþingis. Mig langar að beina því til ráðherra hvort hún geti upplýst okkur um það hvenær við getum vænst þess að útlendingar geti skilað rafrænum umsóknum.

Eins og fram hefur komið getur rafræn stjórnsýsla leitt til fleiri starfa án staðsetningar og hún getur líka aukið jafnrétti óháð búsetu. Hún bætir þjónustu við atvinnulífið og svo mætti lengi telja. En rafræn upplýsingakerfi eru samt ekki svarið við öllu. Þau eru ekki lausnin á öllu því sem við þurfum að bæta. Í mars sl. skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu um sýslumenn, samanburði milli embætta. Við umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrsluna upplýsti dómsmálaráðuneytið að unnið væri að framtíðarsýn fyrir sýslumannsembættin og í henni fælist m.a. efling rafrænnar stjórnsýslu og miðlægrar vinnslu mála, en þar kom líka fram að þó að upplýsingatæknin væri vissulega lykill að umbótum eru mörg verkefna sýslumanna þannig að þau krefjast ávallt nálægðar við borgarana og einstaklingarnir þurfa að geta þau haft þau mannleg samskipti. Í þessari umfjöllun um embætti sýslumannanna kemur líka fram að það vantar nákvæmar og greinargóðar upplýsingar um umfang verkefna stjórnvalda sem sýslumönnum er ætlað að sinna svo hægt sé að útfæra þau með skilvirkum og árangursríkum hætti og samræma betur þjónustuna sem embættin veita á landsvísu. Ég vil hvetja ráðherrann til að hraða þeirri vinnu og sé þess merki í fjárlögum að verið er að vinna þetta verkefni áfram. En ég vil spyrja hvernig miði vinnu við mótun framtíðarsýnar fyrir embættið.