150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:30]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og tek undir það með henni að í sjálfu sér held ég að þetta sé ágætt skref sem verið er að stíga með því að færa, hvað eigum við að segja, ábyrgðina á ráðstöfun þessara fjármála og fjármuna til kirkjunnar sjálfrar. Ég held að það sé ágætt og ég kýs að líta þannig á að það hljóti að vera skref í þá átt að aðskilja að fullu að lögum og fjárhagslega ríki og kirkju. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hún sé enn sömu skoðunar og hefur komið fram í máli hennar, reyndar áður en hún varð ráðherra, um stöðu kirkjunnar gagnvart ríkinu og hvort það sé ekki orðið tímabært og hvort einmitt þessi langi samningur sem nú hefur verið gerður veiti ekki yfrið nóg svigrúm til þess að hefja nú þegar vinnu við það að ná fram fullum aðskilnaði þar sem trúfélög og lífsskoðunarfélög beri sjálf ábyrgð á eigin rekstri og ríkið komi þar ekki með neinu móti að.

Ég held að mjög mikilvægt sé að hefja þá vinnu og eins og ég sagði held ég að þetta hafi verið ágætt skref sem var stigið með kirkjujarðasamkomulaginu. En ég held að mikilvægt sé að halda þessu áfram vegna þess að hvað sem líður þeim kirkjujörðum sem voru undir — og voru kannski á þeim tíma (Forseti hringir.) einmitt í eigu allrar þjóðarinnar, af því að þá var þjóðkirkjan sannarlega þjóðkirkja þannig að við vorum í sjálfu sér að færa þetta úr einum vasa í annan, (Forseti hringir.) — þá er sú staða ekki lengur uppi og því þarf að breyta.