150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:32]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég sé fyrir mér að kirkjan verði sjálfstæð og með þessum samningi er verið að gera hana enn sjálfstæðari og það lýtur að fjármögnuninni fyrst og fremst. Ég held að þetta samkomulag geti verið ágætur grunnur til að halda áfram, sem hefur verið mjög erfitt vegna þess að það hefur verið óleyst hvernig þessum málum eigi að vera háttað. Það þarf líka að líta á það hverju kirkjan sinnir. Það er auðvitað ýmislegt á sviði félags- og velferðarmála sem kirkjan sinnir dag frá degi og því þarf að velta fyrir sér hver fjárframlögin okkar eru í raun til þeirra og til trúmála. Kirkjan hefur gegnt og gegnir mikilvægu hlutverki sem þarf að ræða við landsmenn alla hvernig eigi að hlutast til um í framhaldinu. En það er ljóst að samningurinn felur í sér stóraukið fjárhagslegt sjálfstæði þjóðkirkjunnar sem er góður grunnur að því hvernig við getum litið á þjóðkirkjuna fyrst og fremst sem trúfélag en ekki ríkisstofnun.