150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:36]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og þetta er hárrétt. Þetta er stórt vandamál í íslensku samfélagi sem kallar á að mjög mörg ráðuneyti bregðist við og ég þekki að það eru mörg ráðuneyti sem vinna saman að því og líka hvert í sínu lagi að bregðast við þessu. Það snýr ekki bara að löggæslunni. Við getum auðvitað nefnt að almenn löggæsla og löggæsla vegna skipulagðrar glæpastarfsemi hefur verið efld til að taka á stórum brotum og mun áfram verða efld en þetta lýtur ekki síður að velferðarmálum, menntamálum, þar sem forvarnir koma inn, að heilbrigðiskerfinu og öðru. Það er á þeim vettvangi sem ég held að við getum enn frekar gripið fyrr inn í og horfst í augu við að þetta er að mörgu leyti heilbrigðismál. Að sama skapi þarf löggæslan að sinna sínu. Ég er fullviss um að ríkisstjórnin setji þau mál í mikinn forgang á öllum þessum sviðum sem heyra eiginlega undir a.m.k. fjóra ráðherra og ráðuneyti. Ég held að það sé sú samvinna sem muni skila okkur raunverulegum árangri.