150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:37]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið. Ég skil vel að hún sem löglærð skuli líta heildstætt á málin, eðli málsins samkvæmt. En ég var nú búin að smætta þetta niður í ráðuneyti hennar þar sem ég sé fyrir mér að þurfi að grípa miklu öflugar inn í og þá er það náttúrlega lögreglunnar að gera það, hún er betur í stakk búin til þess en við hin og hefur getað kortlagt stöðuna miklu betur en við en kallar eftir auknu valdi eða auknum krafti til að geta einbeitt sér enn þá betur að málinu. Þá er ég ekki að tala um að grípa inn í núna heildstætt eins og hæstv. ráðherra vill meina heldur að takast á við vána akkúrat í dag. Það er núna sem við horfumst í augu við þessa holskeflu, þennan kókaínfaraldur og við erum búin að vera að glíma við ópíóíðana líka. Lögreglan okkar er eldklár og gæti gert miklu meira ef hún hefði í rauninni tækifæri til þess að byggja það betur upp. Þá getur hún stigið miklu fastar inn í, trúi ég. Nú finnst mér vera vá fyrir dyrum, akkúrat í dag, ekki á morgun, ekki framtíðarsýn, ekki hvernig við eigum að byggja upp til framtíðar, sem er náttúrlega frábært líka. En núna er staðreyndin nákvæmlega þessi: Það er faraldur í landinu í dag, akkúrat í dag. Og hvað er hæstv. dómsmálaráðherra tilbúin að gera í þeim efnum?