150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla í stuttu máli að gera grein fyrir helstu atriðum frumvarps fyrir fjárlagaárið 2020 hvað varðar þau málefnasvið sem undir mitt ráðuneyti heyra. Samkvæmt frumvarpinu liggur fyrir að heildarútgjöld til þeirra tveggja málefnasviða sem hér undir falla, þ.e. landbúnaðar og sjávarútvegs, eru tæpir 24 milljarðar sem skiptast þannig að um 7,3 milljarðar fara til sjávarútvegsins og fiskeldisins og um 16,6 milljarðar til landbúnaðarmálefnasviðsins.

Í sjávarútvegsmálum er megináherslan lögð á eflingu grunnrannsókna annars vegar og að bæta stjórnsýslu, eftirlit og heilbrigðiskröfur í fiskeldi hins vegar. Varðandi grunnrannsóknirnar er vert að taka fram að mælt er fyrir um 750 millj. kr. framlag til rannsókna og fjárfestinga. Þar er um að ræða 600 millj. kr. framlag í byggingu nýs hafrannsóknarskips sem mun efla allar grunnrannsóknir til muna. Samtals hefur þá verið varið á tveimur fjárlögum um 900 milljónum til þessa verkefnis. Sérstök byggingarnefnd hefur verið skipuð og hún hefur nú þegar gert samning við Ríkiskaup um samning um útboðsvinnu fyrir skipið. Hins vegar er um að ræða 150 millj. kr. framlag til Hafrannsóknastofnunar vegna samdráttar í framlögum úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins til stofnunarinnar. Það framlag kemur til viðbótar 250 millj. kr. framlagi á þessu ári.

Það er rétt að gera nokkra grein fyrir þessari aukningu því að undanfarin misseri hefur verið nokkuð fjallað um fjárframlög til Hafró en sú umræða var til þess fallin að varpa skýru ljósi á ýmsa veikleika varðandi það hvernig stofnunin hefur verið fjármögnuð undanfarin ár, sérstaklega þá staðreynd að stofnunin hefur verið háð sértekjum úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Þær tekjur hafa lækkað til mikilla muna á síðustu árum en með fjárlagafrumvarpi næsta árs er endanlega verið að breyta þessu fyrirkomulagi á þann veg að tryggja stofnuninni inn í sinn fasta grunn 400 millj. kr. í fastar tekjur sem samsvarar nokkurn veginn eða rúmlega þeim fjármunum sem Hafró fékk úr þessum tiltekna sjóði. Þetta er að mínu viti mjög jákvætt skref fyrir starfsemina og styrkir vonandi hennar störf.

Varðandi áherslu á stjórnsýslu, eftirlit og heilbrigðiskröfur í fiskeldi er vert að nefna að við hyggjumst styrkja eftirlit og stjórnsýslu Matvælastofnunar með fiskeldinu ásamt því að setja á fót rafræna gátt fyrir birtingu upplýsinga. Við gerum sömuleiðis ráð fyrir auknu fjárframlagi í Umhverfissjóð sjókvíaeldis sem hefur það að meginmarkmiði að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis.

Loks vil ég í lokin á sjávarútvegsumræðunni nefna og minna á það að Hafrannsóknastofnun fær aukin framlög til húsnæðismála en hún er að flytja í nýtt húsnæði í Hafnarfirði á næstunni.

Varðandi landbúnaðarmálin er flest þar í föstum skorðum. Eðlilega eru útgjöldin bundin þeim búvörusamningum sem eru í gildi á hverjum tíma og þannig háttar til að við erum með búvörusamninga núna sem gilda til ársins 2026. Framlögin eru í fullu samræmi við þá samninga og þeir voru undirritaðir í febrúar árið 2016. Helstu tíðindin á þessu sviði er aðgerðaáætlun í því skyni að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Að þessum aðgerðum hefur verið unnið nú í alllangan tíma. Fjárlagafrumvarpið mun treysta framgang þeirra aðgerða því þær hafa allar verið fjármagnaðar. Rétt er að minna á í þessum efnum að ég mun skila, eins og þingsályktunin gerir ráð fyrir, Alþingi skýrslu þann 1. nóvember nk., þar sem verður farið yfir stöðu þessara mála.

Ég vil nefna það hér að gert er ráð fyrir því að þróa rafrænt vefsvæði þannig að stjórnsýsla í tengslum við útboð á tollkvótum verði rafræn. Stærsta breytingin varðandi stjórnsýsluna felst hins vegar í því að við erum að færa verkefni Búnaðarstofu inn til ráðuneytisins og megintilgangur þess er að efla hvort tveggja stjórnsýslu og stefnumótun á sviði landbúnaðar og matvælamála, ekki eingöngu með því að fjölga starfsmönnum í þeim þætti í ráðuneytinu heldur ekki síður að tengja betur ábyrgð á framkvæmd þeirra verkefna sem falla undir búvörusamninginn, færa þau öll á einn stað í stjórnsýslunni og leitast við að þróa stjórnsýsluna í þeim efnum á annan veg en hún hefur þróast sl. ár. Í frumvarpi til fjárlaga eru gerðar ráðstafanir í samræmi við þessa breytingu en að öðru leyti vísa ég í þá umfjöllun sem um málefnasviðið er í frumvarpinu sem hér liggur fyrir.