150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:46]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirlitsræðu sína um þá mikilvægu málaflokka sem hann stýrir. Þess er skemmst að minnast að við ræddum hér í vor mikið um innflutning á hráu kjöti eða ófrosnu kjöti. Að dómi færustu fræðimanna og vísindamanna og dýralækna hljótast miklar hættur af því að falla frá frystiskyldunni, mánaðarfrystingu við mínus 18°C. Við rötuðum í þessa aðstöðu vegna dóms EFTA-dómstólsins um samningsbrot af hálfu Íslands. Það er mjög ítarlega rakið í frumvarpi hæstv. ráðherra sem hann lagði fram í þeim efnum og ber að þakka fyrir þá ítarlegu greinargerð sem fylgdi því frumvarpi. EFTA-dómstóllinn virti hvorki sjónarmið um lýðheilsu fólks né heilbrigði búfjárstofna. Þau sjónarmið voru virt vettergis. Stefán Már Stefánsson hefur ítrekað fjallað um þennan dóm í fræðiritgerðum, síðast í Tímariti lögfræðinga fyrir ári þar sem hann lýsir því ítarlega ásamt meðhöfundi sínum, Margréti Einarsdóttur, að sá dómur sé einfaldlega rangur.

Gestir á fundum atvinnuveganefndar lýstu miklum áhyggjum af fjármögnun aðgerðaáætlunar þeirrar sem hæstv. ráðherra beitti sér fyrir til mótvægis. Þess vegna er tímabært að inna ráðherra eftir því hvernig háttað sé þeim aðgerðum og þá sér í lagi fjármögnun þeirra.