150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina en þessa sér ekki stað í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2020 þar sem við förum ekki inn í einstaka flokka þess sem lýtur að 5,3% aflaheimildum. Við gerum ráð fyrir því í frumvarpinu, ef hv. þingmaður gætir að því, að kerfið eins og það er gangi óbreytt. Það breytir ekki því að við erum með í skoðun mögulegar breytingar á öllu þessu fyrirkomulagi. Einn af þeim þáttum snýr að því atriði sem hv. þingmaður nefndi, skelbótunum svokölluðu sem voru settar til bráðabirgða, að vísu til tíu ára en hafa síðan verið framlengdar ár eftir ár. Ætlunin var að þetta væri tímabundið ástand, menn vonuðust til að sjá út úr því á þessum tíu árum, en það hefur ekki gerst.

Ég veit af þessum áhyggjum. Ég hef átt fundi með forsvarsmönnum og tengdum aðilum þessa verkefnis sem unnið er að á Snæfellsnesinu og svör mín í þeim efnum eru mjög skýr. Ég skil sjónarmiðin og get alveg tekið undir þau á margan hátt. Það verður ekki brugðist við fyrr en þeirri vinnu sem ráðuneytið hefur sett af stað lýkur og maður sér einhverja heildarmynd af því hvernig á að taka á þeim þáttum. Það væri ekki rétt af mér að gefa einhverjar væntingar um fyrirframgefna niðurstöðu hér. Ég er alveg tilbúinn til að skoða þessi sjónarmið en það verður að gera í heildarsamhengi við aðra þætti pottanna því að það sem fært er til innan þessa kerfis alls, og ég veit að hv. þingmaður þekkir það mætavel, er tekið frá einhverjum öðrum og fært til annars. Ég hef svarað því þannig til þegar þessir aðilar hafa komið að þetta verði skoðað í heildarsamhengi.