150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Skýrsla Ríkisendurskoðunar felldi, að mínu mati, áfellisdóm yfir eftirliti með auðlindinni og reyndar hafði fiskistofustjóri sagt í fjölmiðlum, áður en skýrslan kom út, að stofnunin hefði ekki burði til að sinna sínu lögbundna hlutverki. Það er auðvitað ákaflega alvarlegt. Hæstv. ráðherra ákvað í kjölfar skýrslunnar að setja saman starfshóp til þess að fara yfir eftirlit, bæði á sjó og í höfnum, og það er alveg ljóst að það þarf að setja í þetta mikla fjármuni, meiri en ég sé alla vega í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2020, ef bæta á eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Það skiptir mjög miklu máli, ekki bara til þess að gæta að hag eigenda auðlindarinnar heldur líka til þess að vita hreinlega hvað við erum að veiða upp úr sjó, þ.e. hvernig við göngum á auðlindina, og hafa nægilega yfirsýn yfir stöðuna.

Ég get ekki séð, frú forseti, að það sé verið að setja þá fjármuni til Fiskistofu sem nauðsynlegir eru til að koma til móts við þær væntingar sem uppi eru um bætt eftirlit. Það er reyndar gerð aðhaldskrafa, ekki bara á Fiskistofu heldur líka á Matvælastofnun, en báðum þessum eftirlitsstofnunum er einnig ætlað aukið hlutverk frá því sem er í ár. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hugsanlega geti verið einhverjir sjóðir óskiptir sem á eftir að koma í ljós að hann muni nýta til að bæta eftirlitið.