150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[12:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það kann vel að vera að hópurinn komist að einhverri niðurstöðu um það. En ég fullyrði að við getum, eins og ég hef margoft sagt, endalaust bætt fjármunum í eftirlitsstofnanir ríkisins. Þær kalla alla tíð eftir því. Það er engin stofnun sem hefur gert kröfu um að fá minni eða lægri fjárveitingar en henni er skammtað á fjárlögum hvers árs. Ég er ekkert endilega á þeim sama stað og hv. þingmaður að þetta leysist allt með því að dæla fjármunum þarna inn. Það þarf ekkert endilega að vera. Ég kann ekki skil á því á hvaða stað starfshópurinn er í sinni vinnu og ég hef ekki heyrt að hann sé kominn að þeirri niðurstöðu að fara að forma það að tilteknar fjárveitingar þurfi inn í starfið. Ég ætla hins vegar að bíða með allar slíkar yfirlýsingar þar til vinnunni lýkur og starfshópurinn skilar mér einhverjum niðurstöðum. Þá skulum við leggjast yfir þetta.

Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður bendir hér á, að það eru engar beinar aukningar á fjárveitingum vegna þeirra skipulagsbreytinga sem kunna að koma upp í tengslum við þá vinnu sem þarna er og ég er sammála hv. þingmanni um að það er bráðnauðsynleg vinna sem þarf að fara fram. Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að vandinn varðandi fiskveiðieftirlitið er ekki bara bundinn fjárveitingu. Hann er líka bundinn því sem við sjáum glöggt í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að það er ýmislegt varðandi framkvæmdina, varðandi starfsemina sem þarf að bæta. Það er rétt að það er aðhaldskrafa á Fiskistofu og Matvælastofnun eins og allar aðrar ríkisstofnanir, hún er bara föst og ákveðin og gengur jafnt yfir alla. Við verðum bara að mæta því meðan ekki er annað ákveðið.

Spurt er um það hvort það liggi einhverjir digrir sjóðir til hliðar við fjárlögin. Það er ekki. Það eru vissulega einhverjir pottar hér og þar, eða safnliðir sem kallaðir eru, og ónýttar fjárveitingar. (Forseti hringir.) Það kann vel að vera að hægt sé að grípa til þess ef ástæða er til á grunni þeirrar vinnu sem hv. þingmaður vitnaði til áðan.