150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um að okkur líkar miður ef menn fara ekki vel með opinbert fé. Þess vegna segi ég: Það er ekkert samasemmerki á milli aukinna fjármuna og þess að við getum unnið betur í þessum ráðstöfunum ef við höfum ekki nákvæmlega skilgreint fyrir fram til hverra hluta við ætlum að eyða þeim fjármunum sem við ætlum að taka af almenningi og fyrirtækjum. Þegar rætt er um loftslagsmálin, kolefnisjöfnun og annað háttar þannig til að ríkisstjórnin er með mjög góða áætlun varðandi það, fjármagnaða að fullu með verulegum fjármunum. Þangað geta bændur sótt og aðrar atvinnugreinar. Við erum sömuleiðis mín megin í ráðuneytinu búin að leggja niður opinbera stefnu um innkaup opinberra aðila á matvælum sem tekur fullt tillit og mið af þeirri áherslu sem ríkisstjórnin hefur sett í loftslagsmál. Hvað gerir hún? Jú, hún skapar íslenskum framleiðendum, sérstaklega þeim sem eru í grænmetisræktinni, ákveðið forskot fram yfir erlenda framleiðslu.

Við þurfum miklu frekar að innleiða þessa stefnu í öll innkaup í opinberum stofnunum og þeim tilmælum hef ég beint til allra ráðuneyta og ég vona svo sannarlega að það verði tekið til þess vegna þess að ríkisstjórnin hefur fallist á þessi sjónarmið og ég treysti því og veit að ráðherrar eru að ýta á eftir þessum þáttum. Sömuleiðis er í mótun matvælastefna fyrir Ísland sem tekur mið af þessum málum líka. Ég held að við eigum að sjá nr. eitt, tvö og þrjú þær áherslur, hvernig við getum unnið betur úr því sem við höfum nú þegar áður en við förum að kalla á aukna fjármuni. Ég er ekkert viss um að þeim yrði skynsamlega varið nema við hefðum fyrir fram ákveðið með hvaða hætti við ætluðum að nýta þá og hverju það ætti að skila okkur í endurgjöf gagnvart þeim fjármunum sem þar eru settir.