150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að fara aðeins út í matvælastefnu á Íslandi eins og ráðherra nefndi áðan. Hæstv. ráðherra lagði áherslu á það í ræðu sinni um stefnuræðu forsætisráðherra að stuðla ætti að einföldu og skilvirku regluverki í þágu atvinnulífs og almennings og að í gangi væri vinna, tímasett aðgerðaáætlun, um einföldun á regluverki. Það hefur farið fram mikil umræða hjá matvælaframleiðendum vítt og breitt um landið um hvernig hægt sé að auka matvælaframboð og fullvinnslu og virðisauka heima í héraði, og framleiðslan verði sem næst neytanda. Ég sat fund nýlega hjá Vestfjarðastofu á Þingeyri þar sem voru komnir matvælaframleiðendur vítt og breitt að og þar var rætt um akkúrat þessa hluti og verkefnið um Matarauð Vestfjarða. Það var fjölmennur íbúafundur í Varmahlíð í Skagafirði nýlega og þar var einnig rætt um hvernig hægt væri að fullnýta afurðir heima í héraði sem best og auka virðisaukann þar. Við vitum að úti á landsbyggðinni er mikil matvælaframleiðsla, bæði í landbúnaði, sjávarútvegi, ylrækt og fiskeldi svo eitthvað sé nefnt og mig langar að heyra hvernig ráðherra sér fyrir sér að ráðuneytið geti unnið beint með aðilum á landsbyggðinni, landshlutasamtökum og aðilum að því að auka fullvinnslu og fullnýtingu afurða. Það rímar auðvitað vel við stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfis- og loftslagsmálum eins og ráðherra hefur komið inn á, að hægt sé að bjóða hollt og gott og fjölbreytt fæðuframboð sem næst neytanda. Ég vil fá að heyra hvað ráðherra sér fyrir sér í þessum efnum varðandi framkvæmd þessarar áætlunar hjá ráðuneytinu.