150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tel að það séu mjög mikil sóknarfæri fyrir matvælaframleiðendur víða um land. Ráðherra kom t.d. inn á sláturhús og það eru gerðar algerlega sömu kröfur til lítilla og stórra sláturhúsa. Ég þekki að í Færeyjum eru víða lítil sláturhús sem eru nálægt framleiðslunni og kjötið ætlað til heimamarkaðar, beint frá býli. Það er upprunamerking á kjötinu sem þar er framleitt og ég tel að við mættum læra ýmislegt af Færeyingum í þeim efnum. Við vitum að það er gífurlega mikið um hobbíbændur, eins og við segjum, sem framleiða matvæli og selja. Er ekki rétt að reyna að fá þetta frekar upp á yfirborðið, gera það eftir réttum leikreglum? Það hefur enginn dáið af því, held ég, að borða framleiðslu sem er heimaslátruð og ég held að heilbrigðiskröfur geti verið mjög góðar þó að þær séu miðaðar við minni sláturhús, beint frá býli. Mér finnst gott að heyra að unnið er að þeim málum í ráðuneytinu og tel það mjög brýnt.

Ráðherra minntist einnig á í ræðu sinni á miðvikudagskvöldið að það væri stefnan að útvista verkefnum. Mig langar að heyra hvar þær áherslur liggja. Við vitum að víða um land er að byggjast upp mikið fiskeldi og matvælaframleiðslan er auðvitað bæði í sjávarútvegi og landbúnaði vítt og breitt um landið. Mig langar að heyra hvort við munum sjá þess stað að þær stofnanir verði styrktar sem sinna eftirlitsskyldu og rannsóknarhlutverki í matvælaframleiðslu víða um land.