150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn kom mjög víða við þannig að ég veit ekki hvort ég kemst yfir allt en ég skal reyna að nálgast það. Fyrst varðandi kröfur til stórra og smárra sláturhúsa. Já, það er rétt, að mörgu leyti eru þær eins og að mörgu leyti þurfa þær líka að vera eins, sérstaklega því sem lýtur að gæðakröfum til þeirra afurða sem út úr slíkri verkun eiga að koma. Aðrar aðstæður sem geta lotið að því hvernig menn skipuleggja vinnuna o.s.frv. hljótum við að skoða, hvort við getum einhvern veginn greitt úr því. Ég hef sömuleiðis tekið eftir þessu með Færeyjar. Ég veit að vísu ekki innan hvaða regluverks þeir vinna en ég átti þess kost að vera í Færeyjum á síðasta hausti. Þar kom ég á veitingastað í lítilli byggð, en þetta var ekki bara veitingastaður, þetta var rekið sem sláturhús og það gekk alveg saman. Okkur varð ekki meint af þeim góðu veitingum sem við fengum hjá frændum okkar í Færeyjum

Spurt er um útvistun verkefna. Já, ég sé það í mörgu af því sem fyrir mig er borið að stofnanir ráðuneytisins hugsa oft á þann veg að þeim eru falin ákveðin verk að lögum og þá þarf að byggja það upp innan vébanda umræddra stofnana. Þetta er fullkomlega eðlileg hugsun en engu að síður tel ég að við getum alveg spyrnt annað slagið við fótum. Hv. þingmaður nefnir fiskeldið. Er einhver þörf á því að Matvælastofnun í því tilviki þurfi endilega gera út sitt fólk til að hafa eftirlit með lúsatalningu eða skoða það? Væri ekki nær að bjóða út slík verkefni eða fela einhverjum fyrirtækjum eða einstaklingum sem eru áhugasamir um það í nágrenni þeirra byggða þar sem atvinnugreinin er að vaxa upp? (Forseti hringir.) Ég segi jú, við eigum að kappkosta að koma svona verkum á heimaslóð og ég tel full færi til þess og hyggst vinna þannig.