150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Það var verið að samþykkja frumvarp um fiskeldi í vor og ég benti á atriði sem væru ástæðan fyrir því að ég gæti ekki greitt atkvæði með því, m.a. út af varúðarreglunni og kostnaðarreglunni. Annars vegar er það varúðarreglan, að náttúran skuli ávallt njóta vafans, og hins vegar kostnaðareglan, að þeir sem menga skuli borga. Mér fannst þetta ekki vera tryggt þarna. En varðandi varúðarregluna, að náttúran skuli njóta vafans, þá sögðu stjórnarþingmenn, sem unnu málið með miklum ágætum að mörgu leyti svo ég bæti því við, að meiri hlutinn benti á það í nefndarálitinu að mikil áhersla væri lögð á það að sem best væri staðið að fiskeldi og þegar farið er í gegnum nefndarálit þessarar nefndar Alþingis, atvinnuveganefndar, með frumvarpi um fiskeldi sé ítrekað að það skuli staðið að því að efla eftirlitið o.s.frv. Þeir vildu meina að þetta myndi halda gagnvart því að fjármagn væri tryggt til að geta sinnt því eftirliti þannig að sem best væri staðið að fiskeldi á landinu og þannig að náttúran myndi njóta vafans.

Mig langar að spyrja ráðherrann. Þegar fjárlagafrumvarpið var unnið og í því fjárlagafrumvarpi sem við höfum fyrir framan okkur og ræðum í dag segir að framlag ríkissjóðs sé samtals 103 millj. kr. þegar kemur að bættri stjórnsýslu, eftirliti og heilbrigðiskröfum í fiskeldi. Er það nóg? Var byggt á þeim forsendum sem við settum með lögum utan um fiskeldi? Það eru túlkunargögn sem nefndin sem vinnur málið leggur til varðandi lögin. Var tekið tillit til álits nefndarinnar varðandi eftirlitið og til Matvælastofnunar sem kom á fund nefndarinnar og ræddi hvað þyrfti? Eru 103 milljónir nægilegar til að uppfylla vilja nefndarinnar og vilja löggjafans þegar kemur að eftirliti með fiskeldi?