150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta er önnur fyrirspurnin sem ég fæ núna um hvort nægt fé sé til eftirlits, að vísu ekki á sama sviði og þessu. Ég svara því alltaf eins: Ef stofnanirnar sem sinna þessu eru spurðar, þá munu þær aldrei segja að þær séu búnar að fá nóg af fjármagni, þurfi ekki meira fé í eftirlit. Tilhneigingin er alltaf sú að sá sem hefur eftirlitið með höndum vill eðlilega reyna að tryggja það sem best og hefur það lögskipaða hlutverk að uppfylla lögin sem á honum hvíla. Til þess vantar yfirleitt alltaf fjármuni að mati þeirra sem standa í forsvari fyrir viðkomandi stofnanir. Að mati þeirra er þetta ekki nægt fé. Ég segi: Þetta er það sem Alþingi leggur fram og ákvarðaðar á ári hverju með lögum á þinginu og innan þeirra ramma sem okkur er áskapað að vinna við.

Ég nefndi í ræðu minni áðan að við erum með 175 milljónir gagngert í breytingar í stjórnsýslu, aukningu og styrkingu á eftirliti og öðru því um líku sem snýr einmitt að því að mæta þessari hörðu kröfu frá Alþingi við setningu laganna um að gæta vel að því að þessi nýja atvinnugrein yxi upp í sem mestri sátt við umhverfið. Þetta eru stöðugildi hjá stofnunum ríkisins og sömuleiðis líka í ráðuneytinu til að byggja upp ákveðna þekkingu þar, sem var nú kannski ekki ýkja mikil. Við erum að setja upp rafræna gátt fyrir birtingu upplýsinga sem almenningur hefur aðgengi að og getur þá sömuleiðis fylgst með líka. Þetta var það sem okkur var skammtað á árinu 2019. Bætt er í á árinu 2020 samkvæmt frumvarpinu og ég fagna því, því að við erum að byggja þessa grein upp á þeirri forsendu að við ætlum að reyna að gera það í sem mestri sátt við það umhverfi sem fóstrar hana.