150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég treysti atvinnuveganefnd mætavel fyrir hlutverki sínu. Hún hefur unnið mjög góða vinnu og lagði sig mjög fram í t.d. þeirri vinnu sem sneri að lagasetningu um fiskeldi. Hún lagði mjög mikla vinnu í það, góða vinnu, og við hv. þingmaður getum verið sammála um það.

Í þeim áætlunum sem liggja fyrir í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir að bæta við störfum við eftirlit hjá Matvælastofnun. Ég þekki ekki boðin um hversu mörg störf eða annað sem forstjóri Matvælastofnunar bar nefndinni, en ég veit að verið er að styrkja eftirlit Matvælastofnunar og Umhverfissjóðs sjókvíaeldis og alls þessa um 175 millj. kr. Hægt er að gera töluvert fyrir það.

Ég leyfi mér að draga í efa þá fullyrðingu hv. þingmanns um að eftirlit með einhverjum þáttum sem snúa að öryggi, hvort heldur er í náttúrunni eða í samfélaginu, dragist saman í hvert sinn eða sitji á hakanum þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Sem betur fer hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið einn í ríkisstjórn þannig að ég veit ekki hvernig hv. þingmaður kemst að svona niðurstöðu eða geti fullyrt slíkt, slengt sisvona út í loftið án alls rökstuðnings. Þetta er mikil fullyrðing, mjög mikil fullyrðing, sem eftir þessi orð hv. þingmanns situr hérna í loftinu án nokkurs rökstuðnings. En bara af því að það hentaði hv. þingmanni að sparka örlítið í Sjálfstæðisflokkinn þá gerði hann það. (Gripið fram í.)