150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:23]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða fjárlög fyrir árið 2020 og mig langar til að rýna ofan í málefni landbúnaðarins. Mikil vinna fór fram á vorþingi til að bregðast við afnámi frystiskyldu á innfluttu kjöti og tel ég að við séum stödd á betri stað eftir samþykkt á þeirri aðgerðaáætlun en við vorum með frystiskylduna hvað varðar matvælaöryggi hér á landi. Afgreiðsla þingsins skilaði þingsályktunartillögu sem felur í sér 17 aðgerðir til að tryggja heilnæm matvæli og vernd búfjárstofna hér á landi. Þar kveður á um bann við dreifingu kjöts sem inniheldur kampýlóbakter og salmonellu og aðgerðir til að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem innihalda sýklalyfjaónæmar bakteríur. Skipuð hefur verið áhættumatsnefnd vegna matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru og þá er mælt fyrir átaki um merkingu matvæla, auk þess sem bæta á upplýsingagjöf til ferðamanna.

Skipan áhættumatsnefndar er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda og miðar að því að efla matvælaöryggi og tryggja vernd innlendra búfjárstofna. Til að ná fram 17 aðgerðum í þessari framkvæmd þarf að fara fram nokkur vinna við smíði reglugerða og langar mig því til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig sú vinna gangi í ráðuneytinu og almennt hvernig vinna við aðgerðaáætlunina gangi.