150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:24]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Vinnan við þetta hófst fyrir hálfu öðru ári og hefur alla tíð gengið mætavel. Starfsfólk ráðuneytisins hefur verið mjög lipurt við að greiða úr þeim þáttum sem upp hafa komið í spurningum eða öðru því um líku allan þennan tíma. Sömuleiðis hafa þær stofnanir sem undir ráðuneytið heyra og þetta snertir unnið með okkur í þessum efnum í hálft annað ár, eins og ég segi, þannig að það er ekkert nýtt í því fyrir okkur. Vinnan gengur vel. Við höfum þegar sett reglugerðir, og af því að hv. þingmaður nefndi skipan áhættumatsnefndar, að hún lægi fyrir núna, eru ákvæði um hana búin að vera í lögum sennilega hátt í áratug, en hún hafði aldrei komist á af einhverjum ástæðum þrátt fyrir að margir landbúnaðarráðherrar hefðu haft tækifæri til að setja hana upp.

Við munum samkvæmt þingsályktuninni gera grein fyrir framgangi áætlunarinnar 1. nóvember nk. og munum gera það með mikilli ánægju vegna þess að við erum komin með mörg þessara verkefna vel á veg og getum alveg greint frá ágætistíðindum í þeim efnum. Sumt af því er eðlilega dálítið snúið að greiða úr og snýr ekki bara að ráðuneytinu til úrlausnar heldur þurfum við í sumum tilfellum að eiga við mjög flókið regluverk á meginlandinu. Við þurfum sömuleiðis að vinna með öðrum ráðuneytum að úrlausn ákveðinna verkefna. Allt gengur þetta ágætlega. Ég veit ekki hvort við verðum komin með allt í höfn fyrir 1. nóvember en við munum að sjálfsögðu greina frá stöðunni.