150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:26]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hvet hann til dáða í þessum efnum. Ráðherra veit að hann hefur fullan stuðning okkar Framsóknarmanna og hvatningu til þess að ganga í verkið.

Að öðru, á vorþingi var samþykkt metnaðarfullt frumvarp er varðar fiskeldi sem á að skila festu og eflingu þeirrar atvinnugreinar í landinu. Ef vel verður haldið á spöðunum á hún eftir að skila okkur verulegum fjármunum í þjóðarbúið. Meðal þeirra breytinga sem náðust inn var að lögfesta mótvægisaðgerðir sem stofnanir sem vinna að leyfisveitingum verða að taka tillit til. Sem dæmi um mótvægisaðgerðir má nefna notkun stærri seiða, minni möskva, notkun ljósastýringar, vöktun í ám og heimild Fiskistofu til að fjarlægja eldisfisk úr nærliggjandi ám ef heimild landeiganda liggur fyrir.

Með þessu er verið að tryggja að hægt verði að vernda t.d. villta stofna í Ísafjarðardjúpi og þannig hefja uppbyggingu á eldi við Djúp í framhaldinu. Er þetta mjög stórt skref í átt að uppbyggingu sjálfbærs fiskeldis við Íslandsstrendur.

Þrátt fyrir að þessi lög hafi öðlast gildi hefur lítið spurst til útgáfu nýs áhættumats í Ísafjarðardjúpi og langar mig því til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi einhverjar fréttir af þeirri vinnu. Stórt er spurt.