150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:28]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt að sú löggjöf sem sett var um fiskeldið markaði nokkur tímamót. Stærstu tímamótin í henni eru tiltölulega einföld setning sem snýr að því að Ísland er eina landið í veröldinni sem hefur lögfest áhættumat erfðablöndunar, sem er gríðarlega mikilvægt, gríðarleg yfirlýsing um að við viljum leggja töluvert á okkur til að standa vörð um náttúrulega stofna okkar, laxfiska, og þetta finnst mér vera kjarni máls í þessari lagasetningu. Við höfum hins vegar dottið inn í umræðu um gjaldtöku eða einhverja aðra þætti sem eru í mínum huga ekki alveg jafn mikilvægir og sú mikla yfirlýsing sem felst í lagasetningu á áhættublöndun erfða.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um, hvenær áhættumatið sem Hafró er að vinna liggur fyrir, veit ég ekki nákvæmlega. Hins vegar er alveg ljóst að Hafrannsóknastofnun þarf að taka tillit til þeirra þátta sem settir voru inn í frumvarpið og hv. þingmaður rakti ágætlega hvaða mótvægisaðgerðir það eru. Þetta eru aðrar forsendur en lágu til grundvallar fyrra áhættumati sem Hafrannsóknastofnun hafði unnið og henni ber að sjálfsögðu að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem þingið setti þar inn. Síðast þegar ég ræddi við forstjóra Hafrannsóknastofnunar voru þeir bara í miðju kafi, voru að vinna sína vinnu en ég hef ekki tímasetningar á hreinu um það hvenær þeir ráðgera að ljúka þessu. Ég vil sem minnst fullyrða um það þar sem ég hef ekki fulla þekkingu á því.