150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:30]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og fagna því eins og aðrir að verið sé að grípa til ráðstafana til að styrkja samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. Mér þætti, eins og vafalítið fleirum hér, gott ef sú bætta samkeppnishæfni væri líka nýtt til að leyfa greininni að keppa aðeins meira. Það er erfitt að þjálfa sig alltaf og fá ekki að spreyta sig í keppni.

Ég velti hins vegar fyrir mér öðrum þætti sem tengist landbúnaðinum órofa böndum í umræðu dagsins í dag, loftslagsmálunum. Ég velti því fyrir mér í umræðunni um framtíðarþróun stuðningskerfis við landbúnaðinn hvort það sé á dagskrá þessarar ríkisstjórnar að flétta betur saman markmiðin í loftslagsmálum við stuðningskerfi við landbúnað. Ég bendi á hina augljósu samlegð sem þar getur verið á ferðinni, að við erum t.d. að tala um markmið um endurheimt votlendis og skógrækt, og auðvitað um leið um breytta landnotkun. Þá er spurning hvernig hægt er að flétta með beinum hætti stuðningskerfi landbúnaðarins þar við.

Í öðru lagi því tengt tek ég einmitt eftir því að það er verið að auka stuðning við rannsóknir í landbúnaði. Þá er ansi stórt mál útistandandi þegar kemur að stöðu greinarinnar í loftslagsmálum og það er kolefnisspor landbúnaðarins, kolefnisspor íslenskra matvæla, af því að við tölum gjarnan um hversu hagstæð innlend matvælaframleiðsla sé í því samhengi. Staðreyndin er hins vegar sú að við eigum engin gögn um það og ég velti fyrir mér hvort ráðherra hyggist láta rannsaka með einhverjum hætti kolefnisspor matvælaframleiðslunnar þannig að við fáum samanburðarhæf gögn um ávinninginn af matvælaframleiðslu heima fyrir.