150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni gagnlegar fyrirspurnir. Hann segir að hann hefði ekkert á móti því að leyfa landbúnaðinum að keppa meira. Já, já, ég er sömuleiðis talsmaður samkeppni á sem flestum sviðum en ég bendi á það að landbúnaðurinn heldur þeim sjónarmiðum á lofti að hann sé líka að keppa við erlenda matvælaframleiðslu sem við flytjum hingað inn, framleiðslu sem nýtur einnig fyrirgreiðslu. Það er sjónarmið hans og bændur hafa leitt fram þau rök í þeim efnum að þeir séu í töluverðri samkeppni engu að síður. Ég nefni sömuleiðis að hátt í 90% af því sem flokkast undir matvæli í tollskránni hér á landi eru tollfrjáls. Það er töluvert mikið og ég leyfi mér að efast um að mörg önnur ríki í veröldinni hafi slíkan greiðan aðgang að sínum matvælamörkuðum. En það er annað mál.

Ég tek heils hugar undir það sem kemur fram hjá hv. þingmanni um kolefnisspor matvælaframleiðslunnar. Okkur er brýn nauðsyn á að draga það fram af þeirri einföldu ástæðu að við vitum af mjög miklum mismun á milli einstakra greina í matvælaframleiðslunni og við erum að vinna að því. Við erum t.d. í samstarfi við sauðfjárbændur og umhverfisráðuneytið varðandi þá þætti. Við eigum sömuleiðis loftslagsáætlunina sem umhverfisráðherrann er í forsvari fyrir og við höfum fjármagnað þannig að við erum á ýmsum sviðum að fikra okkur inn á ný lönd í þeim efnum. Það er mjög ánægjulegt að heyra þann öfluga stuðning sem liggur fyrir í þinginu við þær áherslur.