150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og fagna góðum undirtektum við þessar spurningar. Ég held að þetta sé einmitt gríðarlega mikilvægur þáttur þegar kemur að loftslagsmálunum. Við tölum stundum kannski aðeins á skjön. Við erum að tala um að stærstu tækifæri okkar í loftslagsmálum séu t.d. breytt landnotkun og endurheimt votlendis en á sama tíma tölum við um innlenda matvælaframleiðslu eins og hún sé án kolefnisfótspors þannig að ég held við þurfum að þekkja betur hvað af því liggur í ónýttu landi, sem við getum auðveldlega endurheimt, og hvert hið raunverulega kolefnisspor t.d. innlendrar kjötframleiðslu sé.

Það er fagnaðarefni að verið sé að skoða þetta. Ég held að það sé mjög mikilvægt upp á markmið okkar í loftslagsmálum til lengri tíma litið.

Hvað varðar sameiginlegan áhuga minn og hæstv. ráðherra á samkeppni er það alveg rétt ábending að umtalsvert magn matvæla er flutt hingað sem ekki eru heldur framleidd hér. Við erum með mun fábreyttari matvælaframleiðslu en mörg önnur lönd sem er án tolla en sem vægi af neysluútgjöldum heimilanna er alveg ljóst að þegar kemur að mjólkurvörum og kjöti er þetta býsna veigamikill baggi í heildarútgjöldum heimilanna til matvælainnkaupa. Þar sjáum við þann mikla verðmun sem er á milli landa hvað þetta varðar. Hugleiðingar mínar í þá veru eru auðvitað að kannski höfum við tækifæri í loftslagsmálunum og markmiðum okkar þar til að breyta stuðningskerfi við landbúnaðinn að einhverju leyti, ekki til þess að draga úr stuðningi heldur einmitt til að tvinna saman markmið okkar í loftslagsmálum, auka þannig jafnvel beinan stuðning við greinina en geta þá dregið úr tollvernd á sama tíma án þess að skerða samkeppnishæfni landbúnaðar við innfluttar vörur sem vissulega eru víða niðurgreiddar, eins og hæstv. ráðherra bendir á.