150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Takk fyrir þetta. Ég nefni í því sambandi, af því að ég svaraði því ekki áðan þegar hv. þingmaður spurði hvort hægt væri að flétta saman markmið í loftslagsmálum og áherslur í landbúnaðarmálum, að ég tel að það sé vel hægt. Bæði bændur og stjórnvöld eru að vísu bundin af samningi sem er rammaður inn til ársins 2026. Síðari endurskoðun á honum fer fram innan tíðar, segi ég, af því að þau ár sem eftir eru af honum eru tiltölulega örstutt spor í eilífðinni í ljósi þeirra viðfangsefna sem við erum að glíma við á sviði loftslagsmála. Ég held að við þurfum að fikra okkur smátt og smátt inn á þá braut sem hv. þingmaður er að tala um. Okkur vantar meiri þekkingu en við höfum engu að síður sett, í mínum huga alla vega, tvær stefnur núna, annars vegar stefnuna um opinber innkaup sem kveður á um að áherslur ríkisstofnana eigi að vera á sviði loftslagsmálanna, hafa sem styst kolefnisspor matvæla. Okkur vantar betri mælingar í því en ég veit þó til þess að jafnvel einstaklingar úti í bæ eru að hanna tæki til mælinga sem við eigum að sjálfsögðu að horfa til. Þar erum við að stíga ákveðin skref.

Sömuleiðis er í bígerð og verður kynnt, vonandi öðru hvorum megin við nk. áramót, matvælastefna fyrir Ísland sem tekur sömuleiðis mið af loftslagsáhættu. Þarna er á tveim stöðum verið að leggja ákveðinn grunn að breytingum í þeim efnum og við verðum að hafa þolinmæði til að gefa atvinnugreininni tóm, og stjórnvöldum sömuleiðis, til að laga sig að þeim breytingum. Ég tel að þær séu óhjákvæmilegar, þær munu koma og ég heyri að það er mjög mikill samhljómur með fólki í þeim efnum mestan part í þinginu. Það er einstaka stjórnmálaflokkur sem sker sig úr í því.