150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:39]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hans en á bls. 92 í fjárlagafrumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Þó að óvissa um aflabrögð sé viðvarandi áhættuþáttur í íslensku efnahagslífi er óvissa um loðnuveiðar á næsta ári sérstaklega veigamikil. Útflutningsverðmæti loðnu nam um 0,6% af vergri landsframleiðslu árið 2018 en verður mun minna í ár þar sem engin loðna var veidd á vertíðinni. Í hagspá Hagstofunnar er gert ráð fyrir því að einhver loðna verði veidd á næsta ári en það gæti brugðist. Raunar valda loftslagsbreytingar og hlýnun sjávar vaxandi óvissu um marga nytjastofna.“

Loðnuveiðar eru vissulega afar mikilvægar, ekki síst í einstökum sjávarbyggðum, svo sem á Austfjörðum, Hornafirði og Vestmannaeyjum. Hér var í síðustu viku dreift í skýrslu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til Alþingis um nýtingu og vistfræðilega þýðingu loðnustofnsins á árunum 2000–2019. Að þeirri skýrslubeiðni stóðum við flest í stjórnarandstöðu, að Miðflokki undanskildum. Ég vil benda á bls. 15 í loðnuskýrslunni í greinargerð um framtíðarhorfur í þróun stofnstærðar loðnustofnsins þar sem kemur skýrt fram að horfur eru ekki góðar í loðnuvertíð í vetur. Eiginlega eru þær engar nema til komi kraftaverk og að á næstu mánuðum finnist loðna sem hvergi hefur sést til þessa.

Hefur ríkisstjórnin hugleitt einhver viðbrögð eða aðgerðir fari svo að engar loðnuveiðar verði í vetur, annan veturinn í röð? Slíkt gæti haft alvarlegar afleiðingar, bæði fjárhagslega og vistfræðilega, sem kæmu mögulega fram í samdrætti, t.d. á þorski og öðrum nytjastofnum.