150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni gríðarlegt hól fyrir vel unnin störf. [Hlátur í þingsal.] (IngS: Ég var bara að grínast.) Nei, nei, þetta var háalvarleg yfirlýsing og ég þakka hana af heilum hug. Ég þakka sömuleiðis að hv. þingmaður hefur engar áhyggjur af fjármálum, hvorki landbúnaðar né sjávarútvegs, í því frumvarpi því að við erum ekki að ræða það hér heldur ástandið á loðnustofninum sem er gríðarlega mikilvægt. (Gripið fram í.) Við höfum verið að vinna í ráðuneyti mínu varðandi þá mikilvægu spurningu sem hv. þingmaður nefndi, samspil loftslagsbreytinga, hlýnunar sjávar og stöðu nytjastofna okkar, og höfum átt viðræður við Hafrannsóknastofnun um það. Þar er sérfræðiþekking okkar. Við stjórnmálamennirnir og embættismennirnir í mínu ráðuneyti erum bara leikmenn í því. Ég er með í undirbúningi verkefni og ætla ekkert að upplýsa hér og nú hvernig ég hyggst fara með stofnun þeirra en við þurfum að takast á við þessa spurningu og ég næ vonandi að kynna í vetur hvernig ég sé okkur takast á við hana.