150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 og sérstaklega þær áherslur sem þar er að finna í heilbrigðismálum. Í stjórnarsáttmálanum segir að íslenska heilbrigðiskerfið eigi að standast samanburð við það sem gerist best í heiminum og að allir landsmenn eigi að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu. Alþingi samþykkti einnig heilbrigðisstefnu í byrjun sumars til ársins 2030 sem hefur það að markmiði að skapa heildstætt kerfi fyrir þjónustu við landsmenn sem rúmar öll svið og allar greinar þannig að við erum með tvö mjög skýr leiðarljós í því með hvaða hætti við byggjum upp og hvaða forgangsröðun við leggjum til grundvallar.

Við höfum lengi staðið framarlega í samanburði við önnur lönd og árangurinn hefur verið á mörgum sviðum á pari við það sem best gerist í heiminum. Ég held að við séum öll sammála um það sem hér erum að kerfið sjálft, þ.e. heilbrigðisþjónustan, er einn af hornsteinum samfélagsins og við viljum skapa heildrænt kerfi og samfellda þjónustu við sjúklinga á réttu þjónustustigi hverju sinni.

Fjárlagafrumvarpið endurspeglar þessar áherslur og í fjármálaáætlun og á fjárlögum eru stóraukin framlög til þjónustu við aldraða, við heilsugæsluna, lækkun á greiðsluþátttöku sjúklinga, eflingu geðheilbrigðisþjónustu og fjármagn til að innleiða ný lyf. Auðvitað verður uppbygging Landspítalans áfram í forgangi en ef við ræðum aðeins sérstaklega um heilsugæsluna sem mikið er lagt upp úr, ekki síst í heilbrigðisstefnu, að sé fyrsti viðkomustaður heilbrigðisþjónustunnar leggjum við áherslu á að efla hana sem fyrsta viðkomustað. 200 milljónir eru merktar því verkefni sérstaklega umfram það sem þegar er komið í grunninn.

Við leggjum áfram áherslu á uppbyggingu geðheilsuteyma um allt land. Á þessu ári fóru 650 milljónir til reksturs þessara teyma og nú verður bætt um betur með 100 millj. kr. framlagi til viðbótar á árinu 2020. Þjónusta heilsugæslunnar við aldraða sérstaklega verður styrkt með 200 milljónum til að innleiða heilsueflandi heimsóknir. Framlög til að bæta heilbrigðisþjónustu við fanga, þar með talda geðheilbrigðisþjónustu, verða hækkuð um 90 milljónir á næsta ári sem að hluta renna til samninga við heilsugæsluna um veitingu þjónustunnar.

Svo er rétt að nefna líka reglubundna bólusetningu barna við hlaupabólu sem hefst á næsta ári og renna til þess verkefnis um 40 millj. kr.

Við vinnum að því markmiði að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og við erum með 300 milljónir eyrnamerktar á næsta ári í það verkefni og síðan viðbótarframlag, 800 milljónir á ári, þar á eftir í næstu fjögur ár samkvæmt fjármálaáætlun.

Uppbygging hjúkrunarrýma er mikið áherslumál og þar erum við með um 3,7 milljarða kr. í uppbyggingu og rekstur, en áhersla verður lögð á að fjölga sérhæfðum dagdvalarrýmum fyrir fólk með heilabilun. Jafnframt er áformað að koma á fót sveigjanlegri dagdvöl víðar en nú er. Í samræmi við áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma er í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir að auka framlög til uppbyggingar um 1,8 milljarða á næsta ári og aukin framlög til reksturs sem leiðir af þessari fjölgun nema tæplega 1,9 milljörðum kr.

Uppbygging Landspítala verður áfram í forgangi og samkvæmt fjárlagafrumvarpinu hækka framlög í það verkefni um 3,8 milljarða kr. frá árinu í ár og verða 8,5 milljarðar á næsta ári og þá hefst uppsteypa meðferðarkjarnans og einnig unnið að fullnaðarhönnun rannsóknahúss. Byggingarframkvæmdir af þessari stærðargráðu taka til sín gríðarlega mikla fjármuni en þessar framkvæmdir snúast um fólk, þær snúast um betri aðbúnað sjúklinga, bættar aðstæður starfsfólks, aukin gæði og árangursríkari heilbrigðisþjónustu.

Virðulegur forseti. Útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi eru yfir meðaltali Evrópuríkja en eru hins vegar lægri en meðaltalið ef litið er til prósentu af vergri landsframleiðslu. Það er viðmiðun sem gjarnan hefur verið höfð í forgrunni. Við erum þó að auka þetta hlutfall milli ára í samræmi við það markmið að þyngja og auka hlut heilbrigðisþjónustunnar í verkefnum hins opinbera. Á árinu 2018 námu útgjöld til heilbrigðismála 25,3% af heildarútgjöldum ríkissjóðs en gert er ráð fyrir að hlutfallið verði 25,7% á næsta ári og frá árinu 2018 til 2020 munu útgjöld til heilbrigðismála hafa aukist úr 229 milljörðum kr. í 260 milljarða kr., þ.e. um 30 milljarða kr. á föstu verðlagi.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið þessari stuttu framsögu og hlakka til að eiga í orðaskiptum við hv. þingmenn.