150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:52]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Núna er vitundarvakning um andlega heilsu fólks. Það samtvinnast m.a. í átakinu að við eigum aðeins eitt líf. Það leiðir mig að spurningu er varðar geðheilbrigði þar sem við heyrum fréttir af því að fólki sé vísað frá geðsviði Landspítala þar sem þröskuldurinn virðist vera hærri núna en hann var áður vegna manneklu og skorts á fjármagni. Einhverjir hafa sagt fullum fetum að geðheilbrigðisþjónusta hér á landi sé í raun gjaldþrota, fólk sé nú með flóknari sjúkdóma og jafnvel hent á milli kerfa, meira að segja í heilbrigðisráðuneytinu sjálfu sé ekki sá mannafli sem þarf til til að sinna því mikilvæga sviði.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra með hvaða hætti hún hyggist beita sér í málaflokknum þar sem orðalag fjárlagafrumvarpsins er ekki skýrt hvað varðar þann þátt. Einnig langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún ætli nákvæmlega að nýta það fjármagn sem sett er undir hatt gagnvirkra forvarna. Vissulega brenna á mér frekari spurningar og ég vænti þess að fá góð svör við þeim þegar hæstv. ráðherra kemur fyrir velferðarnefnd vegna geðheilbrigðismála eins og fyrirhugað er. Ég hef áhyggjur og ég hef þær vegna þess að mestallt fjármagn til heilbrigðismála fer í nýbyggingar og er geðsvið Landspítala ekki þar undir.