150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í framsögu minni er töluverð áhersla á geðheilbrigðismál í fjárlagafrumvarpinu en ég hef skilning á því að það er ekki heiglum hent að lesa sig í gegnum liði sem eru faldir undir samtölum á köflum.

Ég vil segja við hv. þingmann að það sem mér finnst skipta mestu máli í þessum málaflokki, þ.e. málaflokki geðheilbrigðismála, rétt eins og í öðrum málaflokkum er að við séum með skýr markmið á fyrsta, öðru og þriðja stigi þjónustunnar. Við erum núna með því að koma geðheilbrigðisáætlun til framkvæmda að manna heilsugæslurnar um allt land með sálfræðingum. Það þýðir að á fyrsta stigi heilbrigðisþjónustunnar getum við loksins að hluta eða á einhvern hátt átt við andlega heilsu, ekki síður en líkamlega. Við þurfum að vega og meta hvort sú mönnun er nægileg og ekki síður hvort við þurfum mögulega á enn fleiri og samsettari heilbrigðisstéttum að halda. Bent hefur verið á t.d. mikilvægi félagsráðgjafa í því sambandi en við erum að feta okkar fyrstu spor í þeim efnum.

Í öðru lagi er annars stigs þjónustan sem er að hluta til þjónusta sem veitt er á grundvelli samninga. Með því að setja á fót geðheilsuteymi um allt land erum við að veita þjónustu nálægt heimabyggð þegar heilsugæslunni sleppir, þegar þörf er á næsta stigi. Þegar við erum búin að tryggja fyrst viðunandi fyrsta og annars stigs geðheilbrigðisþjónustu léttir það á þriðja stigs þjónustunni, það hlýtur að gera það, og þá erum við að tala um það sem kemur fram í heilbrigðisstefnunni, að veita rétta þjónustu á réttum stað. Ég vona að þetta skýri þennan hluta fyrir hv. þingmanni en í síðara svari mun ég tala um gagnvirkar forvarnir.