150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[13:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp mál sem lúta að því mikilvæga starfi sem sjúkraþjálfarar inna af hendi og þeim mikilvæga hlekk í íslenskri heilbrigðisþjónustu sem þar er á ferðinni. Okkur er nokkur vandi á höndum í veitingu á íslenskri heilbrigðisþjónustu þegar við erum annars vegar að tala um að veita bestu mögulegu þjónustu og hins vegar erum við bundin af fjárlögum. Það er verkefni Sjúkratrygginga Íslands á hverjum tíma að stilla þá strengi saman og nú hefur sá tiltekni fjárlagaliður sem þarna er umræddur farið umtalsvert fram úr niðurstöðu fjárlaga. Þá er verkefni Sjúkratrygginga Íslands að koma á viðunandi samningum við sjúkraþjálfara og veitendur þessarar þjónustu í samræmi við gildandi lög. Það eru ekki bara fjárlög, sem eru náttúrlega lög, við megum ekki gleyma því að fjárlög eru lög, heldur erum við að tala um að Sjúkratryggingar Íslands séu með það verkefni á sínu borði að fá sem besta og öruggasta þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Það er það sem lög um opinber innkaup setja Sjúkratryggingum Íslands fyrir, að fá sem besta þjónustu fyrir þá fjármuni sem Alþingi hefur ákveðið. Það er það ferli sem núna er í gangi og ég fullvissa hv. þingmann um að markmiðið með því er að tryggja bæði gæði og öryggi þjónustunnar eins og nokkurs er kostur, líkt og er um aðra heilbrigðisþjónustu. Það á ekki að vera með nokkru öðru móti í þessari heilbrigðisþjónustu en öðrum þáttum þjónustunnar. Sjúkratryggingar Íslands annast innkaup á heilbrigðisþjónustu og þetta er partur af verkefnum stofnunarinnar.