150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir hennar yfirferð yfir sinn hluta fjárlaga. Ég verð að segja að hæstv. heilbrigðisráðherra er ekki í öfundsverðri stöðu að þurfa fyrst og fremst að slást innan ríkisstjórnar við þingmenn annarra stjórnarflokka sem draga ekkert af sér við að berja á sínum eigin heilbrigðisráðherra sem er að reyna að taka til eftir frjálshyggjuna. Við í Samfylkingunni höfum um margt verið sammála þeim áherslum sem hæstv. ráðherra er að vinna eftir, ekki að öllu leyti en mörgu.

Nú ætla ég bara að vinda mér í að spyrja hvernig hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að standa við stjórnarsáttmálann um uppbyggingu opinbers kerfis sem stenst samanburð við það besta í heiminum. Miðað við fjárlagafrumvarp og ekki síst stöðu Landspítala og þann hallarekstur sem við sjáum nú að varð á síðasta ári langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún sjái fyrir sér að þoka okkar opinbera heilbrigðiskerfi í átt að því besta. Eða eigum við kannski að segja að þoka okkur í átt að viðunandi ástandi þannig að almenningur geti gengið að fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu vísri þegar á reynir, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af lokun deilda, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af undirmönnun, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af löngum biðlistum sem aftur kosta einstaklingana, þá sjúku sem þurfa að leita læknisaðstoðar, fúlgur fjár og síðast en ekki síst án þess að þeir þurfi að hafa áhyggjur af því að hafa ekki efni á að leita lækninga eins og nú er hjá krabbameinssjúkum, hjá námsmönnum, hjá atvinnulausum og hjá láglaunafólki?