150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar og vil kannski fyrst og fremst svara þeim spurningum sem hér voru bornar upp á grundvelli heilbrigðisstefnu. Hv. þingmaður nefnir að það þurfi að tryggja að ekki sé óhófleg bið eftir þjónustu, fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af skorti á mönnun, að það þurfi að auka framlag ríkisins vegna greiðsluþátttöku sjúklinga, þ.e. draga úr greiðsluþátttökunni. Allt þetta er á dagskrá í samræmi við heilbrigðisstefnu.

Ég vil líka segja það við hv. þingmann að heilbrigðisstefnan sem slík tekur ekki afstöðu til þess hvort um er að ræða opinbera þjónustu eða þjónustu sem veitt er af öðrum aðilum. Hins vegar er mín afstaða sú, og það er raunar skrifað inn í lög um Sjúkratryggingar Íslands, að það sé mikilvægt að við séum með sterka opinbera heilbrigðisþjónustu sem útgangspunkt í allri okkar þjónustu. Það er burðarvirkið í heilbrigðisþjónustunni og þannig eru bestu heilbrigðiskerfi í heiminum, þau sem fela í sér mestan jöfnuð. Þau eru á Norðurlöndunum og þau eru öflugust og við viljum standa vörð um þá þjónustu.

Mig langar sérstaklega til að dvelja við það sem þingmaðurinn spurði um varðandi fólk sem þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu. Við sjáum ítrekuð dæmi þess að fólk, bæði aldraðir, öryrkjar og líka námsmenn, þurfi að neita sér um læknisþjónustu eða lyf og jafnvel hvort tveggja vegna efnahags. Það er óásættanlegt hjá ríki að þurfa að standa í þeirri stöðu og þess vegna setjum við okkur það markmið í fjármálaáætlun að við séum komin niður að því sem gerist og gengur á Norðurlöndunum, þ.e. 15% úr eigin vasa. Mín persónulega skoðun er sú að þetta eigi að vera miklu lægra en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að 15% sé viðmiðunarlínan, að ef við séum með meiri greiðsluþátttöku sjúklinga séum við farin að horfa á mismunun á grundvelli efnahags. Á Íslandi er hún nú um 17%.