150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:04]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið og mun lofa henni stuðningi okkar í Samfylkingunni þegar kemur að þessari baráttu allri, ekki síst baráttu fyrir lægri greiðsluþátttöku sjúklinga og þá kannski sérstaklega þeirra hópa sem ekki njóta afsláttarkjara í kerfinu í dag, eins og ég nefndi. Atvinnulausir sem ekki eru öryrkjar eða eldri borgarar, ég nefni námsmenn sem ekki eru öryrkjar eða eldri borgarar. Það eru þarna hópar sem eru láglaunafólk sem er í þessari stöðu, nýtur ekki afsláttarkjara. Það er spurning hvort hægt sé að koma til móts við þennan hóp.

Burðarvirkið í heilbrigðiskerfinu vil ég segja, burðarásinn, er Landspítalinn okkar. Hann er auðvitað það stóra apparat sem við erum að fást við. Ég sé í fjárlögum að það er aðhaldskrafa á Landspítala upp á sjötta hundrað milljónir. Það má sjá að aukning fjárframlaga er ekki ætluð í reksturinn og aðhaldskrafan mun þess vegna fyrst og fremst bitna á rekstri spítalans, hinum daglega rekstri. Vaktaálag stórra kvennastétta, m.a. hjúkrunarfræðinga, er fellt niður, það er bara búið að boða það. Það er morgunljóst að þetta mun bitna harkalega á öllum rekstri sem leiðir til þess að ekki verður hægt að opna fyrirhugaðar deildir, t.d. á öldrunar- og geðsviði, eða að loka verður öðrum deildum. Fyrir er ástandið víða ansi slæmt og biðlistar langir. Þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir eftir bullandi góðæri frjálshyggjuflokkanna, eins og þeir tala um. Þetta er eiginlega algerlega óásættanleg staða. Mönnunin á þessum stóra spítala hefur til þessa dags verið mjög erfið og ég átta mig ekki alveg á því hvernig ríkisstjórnin sér fyrir sér að hægt verði að halda uppi viðunandi heilbrigðisþjónustu.