150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:09]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Hér fjöllum við um heilbrigðismálin og þess vegna langar mig að velta því upp við hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvernig fylgjumst við með og mælum það hvernig við nýtum þá miklu fjármuni sem fara í heilbrigðismál? Heilbrigðismálin eru mikilvæg og einn af langstærstu útgjaldaliðum ríkissjóðs. Þar hefur verið stórbætt í undanfarin ár, settir í þau stórauknir fjármunir þannig að það eru töluvert miklu meiri fjármunir í heilbrigðiskerfinu. En á sama tíma sjáum við að sjálfsögðu að þörfin er að aukast töluvert, bara með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og breytingu á sjúkdómum og öðru slíku. Hvernig fylgjumst við með að við nýtum fjármunina sem allra best, hvernig mælum við það og hvað gerum við til þess? Er eitthvað í þessum fjárlögum sem gerir það að verkum að við fáum meira út úr fjármununum á morgun en við fáum út úr þeim í dag? Ég held að við verðum að vera vel vakandi fyrir því þar sem svo miklir fjármunir fara þangað. Það getur skipt gríðarlega miklu máli upp á að geta veitt betri þjónustu og haft öflugri heilbrigðisþjónustu að fjármunirnir nýtist eins vel og hægt er. Það er það sem mig langar að fá að heyra frá hæstv. heilbrigðisráðherra.