150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:13]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tek undir með henni að það er einmitt mikilvægt að hafa samninganna skýra og vita hvaða þjónustu við viljum fá og á hvaða stigi. Og þá langar mig einmitt að velta því upp hvað fyrsta stigs þjónusta sé og hversu langt hún nái. Þarf öll þjónustan sem við erum að veita á fyrsta stiginu að vera heilbrigðisþjónusta sem er bundin við stranga samninga? Kannski eru smá öfugmæli í þessu. Þarf úrræðið sem er hægt að fá á fyrsta stigi út af t.d. geðheilsu alltaf að vera bundið við stranga samninga eins og margt annað í heilbrigðiskerfinu? Eða er mikilvægt að það sé eitthvert úrræði sem getur átt heima hjá sveitarfélögum, getur átt heima hjá félagsþjónustunni og innan heilbrigðiskerfis, ef það úrræði er sterkt? Það gæti verið öflugt fyrir heilbrigðiskerfið að sjá til þess að slík þjónusta sé til staðar til að draga úr álaginu. Það er mjög líklegt að ef til er eitthvert annað úrræði fyrir þann sem þarf að fá aðstoð vegna eigin geðheilsu en er kannski ekki mjög alvarlega veikur og þarf ekki endilega að hitta geðlækni eða sálfræðing, geti það létt á álaginu á geðlæknum og sálfræðingum innan heilbrigðiskerfisins. Og það er fullt af svona þáttum sem ég tek bara geðheilbrigðiskerfið sem dæmi um, en þetta er vissulega á mörgum öðrum stöðum.