150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum enn og aftur. Ég held að það sé alveg gríðarlega mikilvægt mál sem hann nefnir og lýtur í raun ekki bara að geðheilbrigðismálum heldur að lýðheilsu og heilbrigðissamfélagi í víðum skilningi. Ég hef fundið það á mínum fundum og okkar í ráðuneytinu með sveitarstjórnarfólki og áhugafólki um heilbrigðismál og starfsfólki á stofnunum að mjög mikill áhugi er alls staðar úti um land að samþætta betur þjónustu nærsamfélagsins við heilbrigðisþjónustuna. Þá erum við í rauninni að tala um allt frá því sem er verkefni fjölskyldnanna yfir í það sem er verkefni sveitarfélaganna, félagsþjónustunnar, tómstundastörf barnanna, skólahjúkrun o.s.frv. og síðan inn í heilbrigðisþjónustuna. Þetta á auðvitað ekki síst við þegar við tölum um sálfélagslega heilsu vegna þess að þar mætast náttúrlega þessi þjónustustig með mjög afgerandi hætti.

Ég ætla að leyfa mér að taka bara eitt skref í viðbót frá því sem hv. þingmaður er að spyrja um þegar hann segir: Erum við kannski að létta á heilsugæslunni ef við tökum á málinu einu stigi fyrr? Ef ég skil hv. þingmann rétt. Þá held ég að við eigum að horfa á þetta þannig að við eigum að taka á málunum mörgum stigum fyrr þar sem fjármunir eru settir í forvarnir og þau markmið að byggja upp sterkt og gott samfélag. Eftir því sem við erum framar í röðinni nýtist fjármagnið betur. Það er dýrast af öllu að láta undir höfuð leggjast að gera eitthvað fyrr en við erum í raun komin með stóralvarleg heilsufarsleg vandamál. Það er alltaf betra, bæði fyrir fjármagnið, fyrir almenning og auðvitað bara fyrir lífið og ég leyfi mér að segja hamingjuna, að frekar sé sett fjármagn í að styrkja og styðja við innviði samfélagsins, en það er kannski ekki akkúrat á mínu borði sem heilbrigðisráðherra. En það er sannarlega á borði velferðarnefndar og líka fjárstjórnarvalds Alþingis.