150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Við höfum oft rætt hér málin sem lúta að fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar, bæði fyrr og nú, og ég tek undir þær forsendur sem hv. þingmaður er með í spurningu sinni sem varðar það í raun að styrkja þurfi þessi kerfi, að gefa þurfi í og gera betur. Það höfum við gert í tíð þessarar ríkisstjórnar þar sem um hefur verið að ræða umtalsverða aukningu milli ára. Ég vil hins vegar segja við hv. þingmann þegar hann spyr hvort það sé nægilegt fjármagn fyrir nauðsynlega þjónustu að því miður er hann þarna með matskennda kvarða, annars vegar nauðsynlega þjónustu og hins vegar nægilegt fjármagn. Þess vegna þurfum við að vera með mælikvarða þegar við erum í samskiptum við þessar stofnanir og aðra veitendur þjónustunnar um það hvað við eigum við. Hvað erum við að tala um þegar við erum að tala um nauðsynlega þjónustu? Hver á hún að vera?

Við erum að innleiða gæðaáætlun embættis landlæknis sem snýst um að vega og meta ákveðna mælikvarða í því hvernig þjónustan er veitt. Þá erum við að tala um að við séum komin með fjármögnunarlíkan, bæði það sem núna er í gildi hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og við flytjum síðan út á land þar sem við látum mælikvarðana kallast á við fjármagnið þannig að það sé eitthvert samhengi í hlutunum en ekki að það sé bara einhver ein tala sem á fyrir einhverja töfra að fullnægja akkúrat þessari nauðsynlegu fjármögnun.

Ég vil líka segja að með heilbrigðisstefnunni á að vera skýrara fyrir stofnanirnar að vita til hvers er ætlast af þeim. Hvað er fyrsta stigs þjónusta? Hvað felur sú þjónusta í sér? Hvað felur það í sér að vera með heilsugæslu sem stendur undir nafni og bráðaþjónustu sem er nauðsynleg á hverjum stað? Hvaða þjónustu á þessi stofnun að veita og jafnvel hvaða þjónustu á hún ekki á veita? Það skiptir líka máli að fólk veiti ekki þjónustu sem aðrir geta veitt eða eiga að veita.

Nauðsynleg þjónusta (Forseti hringir.) fyrir nægilegt fjármagn, já, það er markmiðið að svo sé en til þess þurfum við að taka til.