150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:26]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða um fjárlögin fyrir 2020 og mig langar til að grípa boltann þar sem hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir sleppti honum og rýna aðeins í heilbrigðisstofnanir úti á landi. Á vordögum var samþykkt heilbrigðisstefna til ársins 2030 sem heilbrigðisráðherra lagði fram út frá þingsályktunartillögu Framsóknarflokksins frá árinu 2017 um nauðsyn þess að leggja fram slíka stefnu. Því er ánægjulegt að sjá merki hennar í þessum fjárlögum. Í heilbrigðisstefnu er áformað að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu en hægt verði að beina sjúklingum í réttan farveg sem hentar hverjum og einum. Til þessa verkefnis er áætlað um 200 millj. kr. og öðrum 200 millj. kr. á að verja innan heilsugæslunnar til að þjónusta aldraða og ýta undir heilsueflandi heimsóknir, sem er alveg gríðarlegt mikilvægt. Ég þekki þess dæmi að fyrir vestan er þessu beitt og þetta skiptir sköpum. Aldraðir geta verið lengur heima og farið seinna inn á stofnanir. Þetta eru þörf og góð verkefni.

Í heilbrigðisstefnunni er ráðgert að heilbrigðisstofnanir um landið geri árlega eigin starfsáætlun sem tekur mið af heilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun tengdri henni. Forstjórar heilbrigðisstofnana landsins eru umdæmisstjórar heilbrigðismála innan síns umdæmis og hafa með sér reglulegt samráð um heilbrigðisþjónustu undir forystu ráðuneytisins. Þetta kallar á öfluga leiðtoga á hverju svæði til að kortleggja þjónustuþörf og skipuleggja starfsemi stofnunar sinnar út frá því. Í því sambandi langar mig til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort einhver kortlagning hafi farið fram á starfsemi hverrar stofnunar úti á landi með tilliti til ólíkra aðstæðna og þarfa eða hvort einhver vinna sé hafin í þeim efnum.