150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:30]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að sjá þessa kortlagningu og skoðun vegna þess að ég held að þá verði með enn skýrari hætti hægt að beita fjármagninu á rétta staði og í rétta þætti. En þótt við búum í litlu landi eru þarfir fyrir heilbrigðisþjónustu mismunandi langt undan og um mislangan veg að sækja.

Þá kem ég að næsta atriði. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að ríkisstjórnin ætli að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og gera það gagnsærra og skilvirkara. Því er ánægjulegt að í þessum fjárlögum má sjá merki þess að draga eigi úr greiðsluþátttöku sjúklinga og nema aukin framlög til þess 300 millj. kr. á næsta ári. Lækkun greiðsluþátttöku er afgerandi þáttur í því að tryggja jafnt aðgengi fólks í heilbrigðisþjónustu, segir heilbrigðisráðherra. Einn af stóru kostnaðarþátttökuþáttum sjúklinga sem búa fjarri sérfræðiþjónustu og hátæknisjúkrahúsi er ferðakostnaður og uppihald, svo ekki sé minnst á vinnutap sem fólk verður fyrir á slíkum ferðum. Reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innan lands er frá árinu 2004 og hefur ekki verið uppfærð. Miklar breytingar hafa orðið síðan þá á aðgengi fólks af landsbyggðinni að heilbrigðisþjónustu. Með nýrri heilbrigðisstefnu er kveðið skýrt á um jafnræði og aðgengi við veitingu þjónustu og markmið ríkisstjórnarinnar um að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Þá spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra: Er ekki kominn tími til að ný umgjörð um ferðakostnað sjúklinga verði tryggð? Er vinna við nýja reglugerð hafin?