150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:34]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Markmiðið með breyttu greiðsluþátttökukerfi 2018 var að lækka útgjöld til þeirra sem þurfa mikið á heilbrigðisþjónustu að halda og jafna kostnað. Ein af þeim breytingum sem var gerð var að greiðslur fyrir læknisþjónustu og þjálfun ýmiss konar komu saman, þetta voru ekki lengur þessi aðskildu síló, ef svo má segja. Þessi breyting er ein af ástæðum þess að kostnaður hins opinbera við sjúkraþjálfun fór fram úr fjárlögum og þá má spyrja: Af hverju og hvað fékkst í staðinn? Staðreyndin er sú, eftir því sem þeir sem best þekkja til nefna, að annars vegar var ákveðinn kúfur sem þurfti að vinna á því að fólk hafi veigrað sér við að sækja þessa þjónustu vegna mikils kostnaðar og enn fremur er það staðreynd að sjúkraþjálfun er svolítið aftarlega í fæðukeðjunni, læknarnir fyrst og það er hitt og þetta, þannig að fólk er oft búið að borga sinn hluta og komið í 100% greiðsluþátttöku ríkisins þegar komið er að sjúkraþjálfun.

Síðan er það hvað fékkst í staðinn. Það er alla vega óumdeilt að nýgengi örorku eða einstaklingum með örorku- og endurhæfingarmat vegna stoðkerfissjúkdóma, eins og það heitir, fækkaði á þessum árum. Þetta hljóta að vera hlutir sem er áhugavert að hafa inni í myndinni þegar skoðað er framtíðarfyrirkomulag greiðsluþátttöku ríkisins vegna sjúkraþjálfunar. Nú er í fjárlagafrumvarpinu talað um að verið sé að móta endurhæfingarstefnu sem eigi að vera tilbúin í upphafi næsta árs. Þá hljóta menn að skoða það sem ég hef nefnt hér því að ef einhverjir eru lykilaðilar í endurhæfingu okkar eru það sjúkraþjálfarar.

Samt er það svo að nú er útboð í gangi varðandi þessa þjónustu og þetta er eitt fyrsta útboðið í samræmi við lög um opinbera þjónustu eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan og er mikilvægt. Ég spyr í einlægni: Af hverju þessi tímaröð? Þetta er unnið í ósátt við sjúkraþjálfara sem vildu hafa meiri tíma. Þeir biðja um að hlutirnir séu skoðaðir betur. Þeir biðja um að þessi stefna liggi fyrir. Af hverju er verið að vinna þetta í þessari (Forseti hringir.) tímaröð og eiginlega, ef ég má segja það, kalla eftir átökum (Forseti hringir.) þegar ég hefði haldið að akkúrat þetta væri hægt að vinna í sátt og samlyndi með sameiginleg markmið? Ekki síst (Forseti hringir.) árétta ég mikilvægi þess að þetta sé unnið þannig af því að þetta er, ef ég skil málið rétt, fyrsta útboðið af mörgum í samræmi við lögin.