150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Í fyrsta lagi er það sígild umræða í hvaða röð við gerum hlutina. Við erum að byrja á því að gera heilbrigðisstefnu, svo gerum við endurhæfingarstefnu og svo á að gera þetta og hitt og þá er kjörtímabilið að jafnaði búið þegar kemur að því að bretta upp ermar. Sem betur fer er kerfið okkar lifandi, stöðugt, þannig að við erum alltaf í einhverri stefnumótun og við erum alltaf í einhverri skoðun á stöðunni þannig að endurhæfingarstefna verður ekki grundvöllur þeirra samninga sem hér er verið að ræða um en hins vegar er sú stefnumótun partur af þeirri sýn sem er fram undan.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir að aðgengi að þjónustu sjúkraþjálfara er mikið umhugsunarefni í því hvernig það hefur haft áhrif á aðra þætti þjónustunnar. Eitt er það hvort við vorum komin með ákveðinn kúf. Hvað er það sem þarna hefur haft áhrif á stoðkerfissjúkdóma? Hvað hefur haft áhrif á verkjalyf? Hvað hefur haft áhrif á nýgengi örorku o.s.frv.? Þetta er allt saman eitthvað sem er algerlega eðlilegt að taka til skoðunar í þessu sambandi.

Ég vil segja að í grundvallaratriðum held ég að það sé gríðarlega mikilvægt, af því að við vorum áðan að tala um geðheilsu og geðheilbrigðismál á fyrsta stigi, að sjúkraþjálfun sé aðgengileg í heilsugæslunni, að hluti af þeirri breiðu heilbrigðisþjónustu sem maður getur notið strax í heilsugæslunni sé sú mikilvæga þekking sem sjúkraþjálfarar búa yfir. Það er oftar en ekki þannig að sjúkraþjálfarar hafa miklu skýrari og betri innsýn í nákvæmlega það sem þarf að gera þegar um er að ræða stoðkerfisvanda eða það að sjúklingur er að jafna sig eftir aðgerð eða eitthvað slíkt heldur en hin hefðbundnu viðtöl við heilsugæslulækni, þó að hann eða hún sé góðra gjalda verð. Ég vil nefna þetta líka sem innspil en dýpka svar mitt í síðara svari.